Wednesday, November 1, 2017

Barnaherbergi

Að innrétta barnaherbergi er það skemmtilegasta og með þeirri auðveldari hönnun sem ég hef gert. Það er eins og fullkomnunaráráttan sleppi af sér taumnum og leikgleðin taki við stjórn. Kannski eitthvað sem gott er að hafa meðferðis þegar er farið yfir í hin herbergi heimilisins.

Mér finnst svo fallegt að skeyta saman fölum, gamaldags litum, skreyta með dýrum og einföldum mynstrum eins og röndóttum púða, hekluðum bangsa frá Fríðu frænku í bland við einfalda hönnun. Smá minimalisma í bland við vintage.

Það er auðveldlega hægt að nýta það sem fyrir er eða jafnvel endurnýja gömul húsgögn með því að slípa þau og mála. Það er algjör óþarfi að fara í Ikea og kaupa allt nýtt. Það er bæði dýrt og herbergið á í hættu á að verða ósjarmerandi. Mér finnst herbergi með notuðum munum gefa eitthvað extra fallegt fyrir augað. Það virkar öfugt þegar maður sér að herbergið er fullt af glænýjum munum og jafnvel dóti sem þú hefur séð margoft í blöðum og á netinu.

Annað sem mér finnst þó ofar öllu er að herbergið sé ekki ofhlaðið leikföngum. Við Fannar settum okkur þá reglu að hafa frekar nokkur góð leikföng, svo með árunum skiptum við þeim út og annað hvort gefum við eða geymum gamla dótið fyrir næsta barn.

Ekki er gott að hafa ofgnótt af dóti, það býður uppá valkvíða, meira drasl og vanrækslu á leikföngunum sem leiðir oft til þess að barnið kann ekki að meta það sem það fær að gjöf.

Persónuleg saga

// Ég og litla frænka mín, 13 ára, fórum í það verkefni saman að taka herbergið hennar í gegn. Yfir árin hafa leikföngin, litabækurnar og allt barnadótið sem henni hefur verið gefið hrannast upp. Hún vissi varla hvað hún átti. Þarna voru kassar fullir af blönduðu dóti eins og playmo, barbie, eldhúsdóti og fleiru sem leit flest út eins og nýtt.

Það sem kom þó mest á óvart hvað henni fannst erfitt að sleppa þessum hlutum sem hún nýtti lítið sem ekkert. Þetta var orðið rótgróið af hennar sýn á herbergið og hún var hrædd um að þetta yrði tómlegt. En sannleikurinn er sá að hlutir sem skipta okkur engu máli og skapa óreiðu eiga ekki heima inni hjá okkur.

Eftir nokkrar rökræður, iðjusemi og hlátursköst komumst við í gegnum þetta.
Undir öllu dótinu var fallegt herbergi sem fékk loksins að anda. Hún viðurkenndi nokkru síðar að henni fannst erfitt að venjast þessu nýja herbergi en var engu að síður ótrúlega fegin að losna við allt barnadótið sem var löngu orðið lúið. //

Svo þumalreglan er: Hlýlegt, persónulegt, hagkvæmt með fáum góðum munum.



Barnarúm innbyggt í fataskáp.



Björt aðstaða fyrir listsköpun.



Teppin og dýnuhornið gerir þetta herbergi einstaklega mjúkt.



Stórar ljósakrónur í bland við fáa litla hluti skapar skemmtilega mótsetningu.



Gamall fataskápur sem hefur verið málaður, sjáið hvað hann gerir mikið?



Doppur, dýr og dýrðlegir litir.



Wednesday, October 25, 2017

Gallerí veggir


Gallerí veggir eru sniðug lausn á því hvernig maður getur komið listinni sinni fyrir, sérstaklega ef safnið er stórt. Þeir geta verið eins ólíkir og við erum mörg því verkin sem við tökum að okkur eru með því persónulegra sem við veljum okkur inná heimilið. List ýtir því undir persónulegt sjónarspil heimilisins.

Það er fallegt að blanda stórum sem litlum listaverkum saman við fjölskyldu myndir og jafnvel teikningum frá börnum. Sumir kjósa einfaldleikan og hafa alla ramma eins á meðan aðrir kjósa að blanda formum þeirra saman og jafnvel hafa ber blöð og persónulega muni þar inn á milli.

Persónulega hef ég velt því mikið fyrir mér undanfarna daga hvernig ég á að koma verkunum mínum fyrir. Frá því við fluttum inn á Skógarbrautina fyrir rúmu ári síðan hefur íbúðin breyst nokkru sinnum svo mér fannst uppröðunin á veggjunum ekki lengur hæfa skipulaginu.

Eftir smá vapp á netinu lærði ég nokkur trikk.. sem ég fór að sjálfsögðu ekki eftir en vert er að nefna.

Að skipuleggja sig er númer eitt, tvö og þrjú. En það er til dæmis algjör snilld að raða myndunum fyrst á gólfið og klippa síðan út skapalón eftir stærðum og lögun þeirra og raða þeim svo uppá vegginn með því að festa þær með málaralímbandi á vegginn sem galleríið á að hengjast á.

Annað er að redda sér málbandi, það er frekar mikilvægt og þar tala ég af reynslu þar sem ég hafði ekki tök á að stökkva frá í dag til þess að næla mér í eitt slíkt.


Síðan er gott að fara í verkið með ákveðna hugmynd um hvernig þú vilt að útkoman verði. En ef þú ert nokkuð örugg/ur þá er líka gaman að gera þetta fríhendis.














Friday, October 20, 2017

Litir fyrir heimilið

Það hefur ekki farið framhjá neinum að gráir tónar hafa verið vinsælasta málningarval bæði okkar Íslendinga og þeirra utan landsteinanna. Þeir djörfustu hafa farið alveg niður í svartan lit, sem ég persónulega elska en amma mín myndi gjörsamlega hata. Það er eitthvað drungalega kósý við það ef það er sett í gott samhengi við muni innan rýmisins. En nú eru vindar að snúast því litir eru að koma sterkir inn aftur.

Rauður er hinn nýji svarti eins og einhvers staðar var skrifað. - Ég gæti ekki verið meira sammála. -
Innanhúshönnuðir eru að sýna það og sanna hvað burgundy rauður er jafn fallegur og gott burgundy vín og þá sérstaklega í bland við mjúka bleika litinn sem hefur einnig verið í sviðsljósinu að undanförnu. Þegar þessi mjúki skinnbleiki litur kemur saman við þann rauða verður hann ekki eins væminn eins og hann á oft til með að vera. Þetta tvíeyki gefur manni frekar djúpa og hlýja tilfinningu.














Thursday, October 12, 2017

Hollenskur stíll

Seinastliðinn ágúst kíktum við Fannar til uppáhaldsborgarinnar okkar Amsterdam. Við elskum elskum þessa borg og eftir að hafa búið þar í eitt ár langar mig til þess að flytja þangað aftur einn daginn.

Það var yndislegt að fá að koma aftur bara tvö. Mér finnst ég hvergi jafn mikið heima og þegar ég er þar. Að geta verið í léttum klæðnaði yfir sumartímann, horfa á haustlitina aðeins lengur, gluggagægjast í fallegar íbúðir yfir jólatímann og sjá allt dýra- og plöntulífið byrja að dafna á vorin.


Hér er innblástur frá hollenskum bloggurum, búðum og veitingastöðum sem ég tók saman.


Klassískt svart málað hús


Eldhús frá Egenstill




SLA


Anna+Nina



Sissy Boy





Vosges Paris




Theo-Bert Pot






Marloes Wonen





Sunday, October 8, 2017

Fyrirmyndir

Jæja þá er ég loksins komin að þessu, sest við borðið, búin að opna tövuna og búin að búa til blog. Alveg undursamlegt.
En þetta er eins konar innblástursblog/bók fyrir mig til þess að halda mér við möppugerð fyrir arkitektanámið við LHÍ.
Núna var ég að setja Flóru útí vagn og kláraði eina kærkomna kornflex skál. Mig langar til þess að setja inn nokkur hús sem kveiktu á áhuga mínum á húshönnun. En ég hef alveg frá barnsaldri langað í innanhúshönnun.
Svo af hverju arkitektúr? Jú, það er góður grunnur fyrir alla hönnun. Svo hefur leiðin hingað komið mér skemmtilega á óvart hversu gaman mér finnst að skoða og teikna hús.
Farnsworth house eftir Mies van der Rohe byggt (1951).
Falling water eftir Frank Lloyd Wright (1935).
Smiðshús eftir Manfreð Vilhjálmsson 1962
Villa Schreiner eftir Sverre Fehn 1963
Hafsteinshús eftir Högnu Sigurðardóttur 1963