Wednesday, April 18, 2018

Innblástur

Sæl og takk fyrir innlitið á seinustu færslu.
Ég bjóst enga veginn við svona mörgum heimsóknum sem er bara frábært og fær mig til þess að langa að gera meira.

En þetta blogg var aðallega gert til þess að koma hugmyndum og ýmsum umræðuefnum tengdum hönnun yfir á skriflegt form. Ef þið njótið þess er það bara plús.

Allavega, mig langar til þess að sýna frá nokkrum aðilum sem hafa gripið athygli mína og veitt mér innblástur.



Marloe er hollenskur bloggari og hef ég fylgt henni í svolítinn tíma.
Hlutirnir sem hún velur inná heimilið eru ljósir, listrænir, hráir, dökkir og menningarlegir í bland við skandinavískan stíl. Hvítur er alls ráðandi á heimilinu hennar og því kemur verulega á óvart þegar það glittir í lit heima hjá henni.




Þetta er svo ótrúlega vel heppnað heimili. Þrátt fyrir að allt sé hvítt og svart þá er persónuleikinn svo sjarmerandi að það nær engri átt.





Kristin Lagerqvist er þekktur lífsstíls bloggari og ljósmyndari frá Svíþjóð.
Ég datt nýlega inná instagrammið hennar og hef góða tilfinningu fyrir því að hún verði fastur liður á rúnthringnum mínum. En á hennar heimili er blár allsráðandi. Hún er mikill töffari og fáránlega góð að blanda saman alls kyns dóti héðan og þaðan. Stíllinn hennar er einskonar suðupottur af lifðum sjóara, krúttkonu og gamla hirðinum.



Hún er svo hæfileikarík og með svo gott auga fyrir gömlum munum 




Annar sænskur snillingur hér á ferð. Gah! Ég hef sjaldan fallið eins hratt fyrir neinum. Tekla Evelina er lærður innanhús arkitekt en vinnur aðallega sem listrænn stjórnandi, útstillingahönnuður og ljósmyndari.
Það er án gríns hrein unun að fara í gegnum myndirnar hennar. Stílhrein form, ferskir litir og áhugaverður arkitektúr í bland við plöntur.




Það er svo miklu miklu meira af flottum senum frá henni að valið á sýnismyndum var virkilega erfitt. Hún á eiginlega skilið heilann pistil um verkin sín.




Theobert er hollenskur innanhúsbloggari sem býr í sjúklega skemmtilegri íbúð. Ég hef lengi fylgst með honum og er hvergi nær því að vera hætt.
Hann er með svo lifandi og einstaklega frjálslegan smekk. Til dæmis er eldhúsinnréttingin einfaldlega opinn skápur með tjöldum í stað hurða. Allt húsið er undirlagt af flottum húsgögnum, litríkum munum og fallegum listaverkum sem á einhvern hátt ná að svo góðu jafnvægi.



Það er lítið hægt að segja annað en að hann er bara með þetta.


Njótið helgarinnar!

-Arís Eva


Monday, April 9, 2018

Möppuskil

Loksins er þessi dagur runninn upp, 9. apríl. Mér er búið að hlakka til og kvíða þessum degi. Ég er með mjög blendnar tilfinningar núna. Kvíði og tilhlökkun á sama tíma. Frekar skrýtið kombó yfir morgunmatnum og að reyna að halda andliti eftir að hafa vaknað kl 06:30 í morgun með Flóru.

En það hefur kannski farið framhjá fáum sem þekkja mig eða fylgjast með mér á instagram að ég hef verið að vinna í portfolio fyrir umsókn í bakklársnám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands.

Að búa til möppu er ferðalag. Maður lærir margt af því. Minn helsti lærdómur var að finna mér innblástur.
Fyrst þegar ég settist niður til að gera möppu var ég alveg græn. Svo ég byrjaði á einhverju kroti sem á endanum fékk ekki að rata með í möppuna, en það var þó byrjunin. Þetta var svolítið eins og að byrja að æfa eftir langa pásu. Maður er stífur og reynir að gera sitt besta, en allt sem þú gerir minnir helst á apa. Svo með tímanum ferðu að læra inná ferlið og ert orðin dálítill boss á endanum.

Eftir að hafa gengið í gegnum stirða kaflann var ég farin að koma mér í alls kyns stellingar með myndavélina, sanka að mér hinum undarlegustu hlutum og teikna við hvert tækifæri í vinnunni (getið ímyndað ykkur hvað það var vel séð af yfirmanninum mínum). Margt af þessu rataði ekki inn í möppuna. Það er mikilvægt að leyfa hugmyndarfluginu og flæða og setja dómarann til hliðar. Þetta er ákveðið hugarástand þar sem allt má. Engin hugmynd er fáránleg, of mikil eða lítil. Það sem mestu máli skiptir er að hafa gaman að þessu svo að persónuleikinn skýni í gegn.

Snemma í ferlinu fór ég á opinn dag hjá Listaháskólanum sem seinna leiddi til þess að ég fékk fund með fagstjóra arkitektúr deildar. Hann sagði mér að gera verkefni sem að ég hefði gaman af og kynna þau eins og ég vil. Hvort sem það væri teiknað fríhendis eða í teikniforriti. Ef ekki, væri ég að vinna í þjáningu. Ef ég kæmist inn í námið með það sem fordæmi væri ég þar af röngum ástæðum. Svo skilaboðin eru, vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Því ef þú kemst ekki inn, þá er annaðhvort að reyna seinna ef þú finnur ennþá neistann til þess að gera þetta, eða taka því sem vísbendingu um að þetta sé ekki rétt leið fyrir þig.

Ég endaði með 22 blaðsíður sem ég er nokkuð sátt með. Það sem ég vildi hafa gert betur er að hafa stílinn líkari á milli blaðsíðna, en ég reyndi að hafa graffíska sniðið með því móti að það myndi vera eins konar brú á milli verkefna svo þau virki ekki eins ólík. Hér smá sýnishorn af möppunni minni. Eigið yndislegan dag. Ég er farin að ná í möppuna í prent og skila henni. Whoop whoop!

Kveðja, Arís.