Thursday, June 14, 2018

Það er leikur að mála

Ef þú spyrð mig þá er fátt jafn skemmtilegt og pæla í litum. En að velja þann eina rétta getur verið hausverkur því að leikurinn minnir helst á makaleit.


Þegar við vorum að ákveða liti inn í íbúðina okkar skiptum við (ég) örugglega sjötíu sinnum um skoðun og þegar við höfðum loksins málað rann upp fyrir okkur að við höfðum gert hrikaleg mistök.
Að setja bleikan og fjólubláann saman minnti helst á pony-land. Svo auðvitað var það fyrsta sem við gerðum var að skella kolbikasvörtum yfir fjólubláa fataskápinn til þess að hylja skyssuna. En þá kom annar fylgifiskur. Við lökkuðum ekki yfir málninguna sem er mött og því má varla anda á yfirborðið án þess að það sjáist á honum.

Mig langar að deila með ykkur nokkrum heilráðum um hvað er gott að hafa í huga þegar er málað.

1. Upplifun
Í fyrsta lagi skaltu hugsa út í hvaða hugarástand þú vilt að herbergið standi fyrir.
Ef rýmið á að vera róandi skaltu nota kalda litli. Bláan, grænan eða fjólubláan.
Ef rýmið á að örva þá henta betur heitir litir. Rauður, appelsínugulur og gulur.
Hafa ber í huga að fjólublár, brúnn og grænn geta virkað sem bæði kaldir og heitir litir þar sem þeir eru blandaðir af köldum og heitum tónum.

2. Ljósflæði
Sum rými hafa stóra glugga og hleypa því miklu magni af ljósi inn. Mikið ljós getur lýst litinn sem þú valdir til muna.
Því er mjög mikilvægt að gera prufur. Gott er að mála litinn á báða veggi við horn til þess að sjá hvaða tónar koma í ljós.
Mundu að sólarupprisa smitar bláu ljósi en sólsetur smitar gulu ljósi. Því henta kaldir litir í rými þar sem sólin rís og svo öfugt.

3. Stærð
Þetta er mjög einfalt. Ljósir litir stækka, dökkir litir minnka. En það er ekki þar með sagt að lítil rými eigi að vera í ljósum lit til þess að stækka þau. Reyndar hvetja sumir innanhúsarkitektar til þess að nota dökka liti á lítil rými því það blekkir augað hversu lítið rýmið er og gefur því að auki kósý stemningu.

4. Heildarmyndin
Skoðaðu hvaða litir fara vel við húsgögnin þín. Er jafnvel heillandi að mála húsgögnin?
Það er gott að hafa litapallettu til hliðsjónar, það gefur heildartilfinningu þegar gengið er um húsið. Auk þess skaltu horfa út um gluggann hjá þér. Það er sterkur leikur að tengja umhverfið við innra rýmið. Þannig verður rýmið ekki andstætt útsýninu.

5. Fagmennska
Hugleiddu að fá fagmann til þess að mála hjá þér. Málarar kunna að skera línur og slípa veggi á þann hátt sem þú munt aldrei ná án æfingar. Áferðin á málningunni verður silkislétt og þeir geta leiðbeint þér hvernig þú getur náð lokaútkomunni á litnum þú þráir.

6. Innblástur
Að finna litasamsetningu er hægt að gera á marga vegu. Þú getur t.d. safnað myndum í albúm af herbergjum sem heilla þig. Rifið myndir úr tímaritum eða safnað saman hlutum sem tóna fallega saman. Persónulega finnst mér gaman að taka myndir af því sem ég sé. Stundum stend ég mig að því að mynda jafn ómerkilegann hlut og óbrotinn þvottinn útaf litasamsetningu sem kom óvart fram við að gera húsverkin.

7. Þorðu
Það ert þú sem lifir í húsinu og því ætti það að henta þínum persónuleika. Ef þú ert hrædd/hræddur við að þú munir fá ógeð af litnum þá skaltu muna þessa staðreynd:
Þeir sem mála með lit eru líklegri til þess að breyta um lit eftir 18 ár á meðan þeir sem mála í gráum tón eru líklegri til þess að skipta um lit eftir 3 ár. Þetta kemur fram í bókinni Lífið í lit eftir litafræðinginn Dagny Thurmann-Moe, ég mæli eindregið með henni.

Hér tók ég saman nokkra inniliti sem heilla þessa stundina.


Heitir tónar






















































Kaldir tónar




























































Góða helgi

xx Arís

Thursday, June 7, 2018

Smart sólarsellur

Hér er viðfangsefni sem mig hefur lengi langað til þess að blogga um. Sólarsellur!

Af hverju eru ekki fleiri með þær?
Er það útaf útliti þeirra?
Af hverju hafa ekki fleiri hönnuðir tekið þetta viðfangsefni að sér?

Mig grunar um að mörgum langi í slíkar en hafi enga löngun til þess að hafa risastórar svartar plötur plantaðar á þakinu þeirra.

Á fyrirlestrinum DesignTalks á HönnunarMars síðastliðnum komu margir hönnuðir fram með  áhugaverð viðfangsefni. En þessi kona vakti mestan áhuga hjá mér.



Marjan Van Aubel er uppfinningakona og solarhönnuður. Hér á meðfylgjandi mynd stendur hún við hliðina á verki sem hún gerði í samstarfi við Swarovski og Design Miami. Verkið heitir Cyanometer. Það saman stendur af kristalli og sólarsellum. Kristallinn er skorinn á þann hátt að ljósið beinist beint að sólarsellunum. Þannig verða afköst sólarsellanna meiri.
Þetta verk vann Design of the future 2017.
Hversu nett pía?


En hér er hús sem staðsett er í London, þar er verk unnið af henni sem kallast 7 Current Windows.
Ef þú átt leið þar um er þér velkomið að fara inn og hlaða símann þinn.
Þessir fallegu gluggar sem minna helst á steind gler framleiða rafmagn úr sólarljósi sem nýtist innandyra.

Þetta er góð lausn fyrir þá sem heillast að sólarsellu notkun en vilja hafa fagurfræði að leiðarljósi.











Ásamt henni og fleiri hönnuðum hefur Tesla bæst í hópinn þar sem fyrirtækið framleiðir nú falleg sólarselluþök. Sjáið hér.

Ég vona innilega að þetta verði framtíðin.

Hafið það gott í dag.

Kveðja Arís.