Wednesday, November 1, 2017

Barnaherbergi

Að innrétta barnaherbergi er það skemmtilegasta og með þeirri auðveldari hönnun sem ég hef gert. Það er eins og fullkomnunaráráttan sleppi af sér taumnum og leikgleðin taki við stjórn. Kannski eitthvað sem gott er að hafa meðferðis þegar er farið yfir í hin herbergi heimilisins.

Mér finnst svo fallegt að skeyta saman fölum, gamaldags litum, skreyta með dýrum og einföldum mynstrum eins og röndóttum púða, hekluðum bangsa frá Fríðu frænku í bland við einfalda hönnun. Smá minimalisma í bland við vintage.

Það er auðveldlega hægt að nýta það sem fyrir er eða jafnvel endurnýja gömul húsgögn með því að slípa þau og mála. Það er algjör óþarfi að fara í Ikea og kaupa allt nýtt. Það er bæði dýrt og herbergið á í hættu á að verða ósjarmerandi. Mér finnst herbergi með notuðum munum gefa eitthvað extra fallegt fyrir augað. Það virkar öfugt þegar maður sér að herbergið er fullt af glænýjum munum og jafnvel dóti sem þú hefur séð margoft í blöðum og á netinu.

Annað sem mér finnst þó ofar öllu er að herbergið sé ekki ofhlaðið leikföngum. Við Fannar settum okkur þá reglu að hafa frekar nokkur góð leikföng, svo með árunum skiptum við þeim út og annað hvort gefum við eða geymum gamla dótið fyrir næsta barn.

Ekki er gott að hafa ofgnótt af dóti, það býður uppá valkvíða, meira drasl og vanrækslu á leikföngunum sem leiðir oft til þess að barnið kann ekki að meta það sem það fær að gjöf.

Persónuleg saga

// Ég og litla frænka mín, 13 ára, fórum í það verkefni saman að taka herbergið hennar í gegn. Yfir árin hafa leikföngin, litabækurnar og allt barnadótið sem henni hefur verið gefið hrannast upp. Hún vissi varla hvað hún átti. Þarna voru kassar fullir af blönduðu dóti eins og playmo, barbie, eldhúsdóti og fleiru sem leit flest út eins og nýtt.

Það sem kom þó mest á óvart hvað henni fannst erfitt að sleppa þessum hlutum sem hún nýtti lítið sem ekkert. Þetta var orðið rótgróið af hennar sýn á herbergið og hún var hrædd um að þetta yrði tómlegt. En sannleikurinn er sá að hlutir sem skipta okkur engu máli og skapa óreiðu eiga ekki heima inni hjá okkur.

Eftir nokkrar rökræður, iðjusemi og hlátursköst komumst við í gegnum þetta.
Undir öllu dótinu var fallegt herbergi sem fékk loksins að anda. Hún viðurkenndi nokkru síðar að henni fannst erfitt að venjast þessu nýja herbergi en var engu að síður ótrúlega fegin að losna við allt barnadótið sem var löngu orðið lúið. //

Svo þumalreglan er: Hlýlegt, persónulegt, hagkvæmt með fáum góðum munum.



Barnarúm innbyggt í fataskáp.



Björt aðstaða fyrir listsköpun.



Teppin og dýnuhornið gerir þetta herbergi einstaklega mjúkt.



Stórar ljósakrónur í bland við fáa litla hluti skapar skemmtilega mótsetningu.



Gamall fataskápur sem hefur verið málaður, sjáið hvað hann gerir mikið?



Doppur, dýr og dýrðlegir litir.