Sunday, July 29, 2018

DIY: Abstrakt listaverk

Nú þegar íbúðin okkar er að mestu komin til þá eru nokkrar myndir sem við eigum eftir að hengja upp. Mig hefur lengi langað í abstrakt verk en sé ekki fram á að geta borgað slíkt þessa stundina.
Þess vegna ákvað ég að gera mitt eigið listaverk og langar til þess að sýna ykkur einföld skref til þess að búa til ykkar eigin myndir. Það góða við abstrakt verk er að þú þarft ekki að vera hæfileikaríkur teiknari til þess að gera það sjálf/ur.

Það eina sem ég myndi ráðleggja við að leggja að mestan pening í er pappírinn sem þú ákveður að nota. Því meiri gæði því fallegri áferð er á honum. Það er líka betra að mála á þykkann pappír uppá að hann flagni ekki eða rifni.

Málningin þarf ekki að vera dýr, persónulega notaði ég gouache málningu sem er mikið notað fyrir krakka því það er auðvelt að þrífa hana af yfirborðum og úr fötum. Verkið þarf annar ekki að vera gert með málningu, þú getur notað tússpenna, úrklippur eða hvað sem þér hugnast.

Finndu þér síðan eitthvað til innblásturs fyrir litaval og form. Persónulega notaði ég litina úr stofunni hjá mér og skoðaði trilljón listaverk á pinterest.


Æfðu þig með því að gera nokkrar skyssur á blað. Gerðu síðan margar myndir svo þú getur valið þær bestu úr. Það er ólíklegt að þú verðir ánægð/ur með fyrstu tilraunirnar og því þarf smá þolinmæði en vinnan er vel þess virði!


Þessari áferð náði ég með því að blanda þykkri lausn af svartri vatnsmálningu. Síðan dýfði ég breiðum grönnum pennsli ofan í hana og stakk honum síðan létt ofan í dökkgrænan og dökkbláan vatnslit sem ég var með til hliðar. Síðan gerði ég bara eitthvað hálfkæruleysislegt á níu blöð.


Málningin fékk aðeins að þorna (en ekki til fulls) þegar ég tók sama pensil og stakk ofan í hvíta gouache málningu og gerði nokkrar strokur yfir. Ég passaði að hafa ekki of mikið á penslinum svo það kæmu ekki stórar hvítar klessur.

En þegar þú ert komin með þær myndir sem þér lýst best á skaltu finna ramma. Sjálf notaði ég ramma sem ég átti fyrir.
Ef myndin er of stór fyrir rammann skaltu leggja glerið yfir myndina til þess að ákvarða hvar þarf að klippa af. Passaðu að skærin sem þú notar séu löng með gott bit, of stutt eða eydd skæri geta gefið af sér ljót för í skurðinn.




Mundu eftir að þrífa glerið báðu megin áður en þú rammar inn myndina.





Eftir þrjú kvöld af málningarstússi kom ég sjálfri mér á óvart. Því oftar sem ég setti eitthvað niður á blað fann ég hvað hentaði og hvað ekki.

Ég hvet ykkur eindregið til þess að prufa. Það þarf ekki að vera góður í að teikna, reyndar finnst mér það vera kostur því það gefur fallegasta „messið“.

Hér eru nokkrar myndir til innblásturs

Kveðja, 
Arís Eva.


No comments:

Post a Comment